Gleðilegt nýtt ár!
Færslan er ekki kostuð.
Gleðilegt ár kæru lesendur og takk kærlega fyrir samfylgdina á árinu. Nýju ári fylgja gjarnan ný markmið, og ég er spennt að takast á við það sem árið ber í skauti sér. Ég byrja árið á að taka þátt í Veganúar í fyrsta skipti, og borða því bara vegan þennan mánuðinn. Það er hingað til búið að vera skemmtileg áskorun, en þar sem ég hætti að borða kjöt seinasta haust var það svosem minni breyting fyrir mig en marga aðra. Það er samt sem áður ákveðin áskorun að sleppa öllum dýraafurðum, en það er alltaf gaman að takast á við nýjar áskoranir og prófa eitthvað nýtt. Hver veit nema ég deili með ykkur vegan uppskriftum í mánuðinum! Ég fékk Þórunni vinkonu mína til að taka þetta fallega dagatal frá Rifle Paper Co. og dagbókina með heim frá Kanada um daginn, en hvortveggja var keypt í versluninni Indigo. Verslunin er ein af mínum uppáhalds en þar er alltaf hægt að finna falleg ritföng og heimilisvörur. Verslunin sendir því miður ekki til Íslands en þið getið skoðað úrvalið HÉR ef leið ykkar liggur til Kanada.