New In Skincare

Vörur í færslunni eru fengnar að gjöf.
Mér þykir fátt skemmtilegra þessa dagana en að eignast nýjar húðumhirðuvörur. Eftir að ég byrjaði að fljúga finn ég að ég þarf að hugsa enn betur um húðina mína en áður fyrr, enda mikið á hana lagt að vera í háloftunum nánast annan hvern dag. Ég eignaðist nýlega nýja dásamlega hreinsiolíu, sem hefur verið að reynast mér ótrúlega vel – ásamt nýjum burstahaus á Clarisonic burstann minn.
.
Hreinsiolían er frá Biotherm og kallast Total Renew Oil. Hún kemur í plastflösku sem er þægilegt að hafa með sér þegar maður ferðast, en pumpunni er hægt að loka svo ekkert fari nú til spillis í töskunni. Það er gaman að segja frá því að í plastflöskunni er töluvert þynnra plast en í venjulegum plastflöskum, og hún er þannig umhverfisvænni. Olían sjálf er svo algjör dásemd – hún freyðir við notkun og því er sérstaklega gott að nota hana með Clarisonic burstanum. Hún er sérstaklega hönnuð til að hreinsa burt allar leyfar af mengun á húðinni, og það er akkúrat það sem ég þarf! Eins og ég hef áður sagt ykkur byrja ég alltaf á að hreinsa farðann af húðinni, en það geri ég með Garnier Micellar vatninu góða – og svo hreinsa ég húðina sjálfa, með olíunni og Clarisonic.
.
Nýja burstahöfuðið er svo Radiance burstinn, en bara nafnið kallar á mig og hljómar eins og eitthvað akkúrat fyrir mig. Þegar húðin er þreytt og líflaus eftir langan dag er radiance akkúrat það sem ég þarf! Þessi bursti hjálpar til við að birta upp líflausa húð, og halda umfram olíumyndun í skefjum. Burstinn er aðeins þéttari en sá venjulegi, en mér finnst hárin aðeins mýkri og hreinsunin sem ég næ ennþá betri – án þess að vera of harður fyrir húðina mína sem er stundum svolítið viðkvæm þessa dagana. Ég mæli algjörlega með þessum bursta fyrir þá sem eiga Clarisonic bursta, en ég er alveg orðin háð mínum og nota hann daglega!
Þetta skincare combó er búið að vera virka ótrúlega vel fyrir mig seinustu vikur, og ég gef því mín bestu meðmæli!
xxx