Barcelona Travel Tips

Færslan er ekki kostuð.

Eins og glöggir fylgjendur tóku örugglega eftir skellti ég mér til Barcelona um daginn. Þetta var mitt þriðja skipti í borginni, og ekki að ástæðulausu! Barcelona er einn af mínum uppáhalds stöðum í heiminum og það er alltaf jafn gaman að koma þangað. Borgin sameinar sól, menningu og verslunargötur og er þannig hinn fullkomni áfangastaður fyrir sólarsjúka verslunarsjúklinga eins og mig. Þar sem ég veit að margir eru á leið til Barcelona á næstu misserum datt mér í hug að setja niður blogg með því sem mér finnst gaman að gera og því sem má ekki sleppa.

P.s. þið getið ýtt á einstaka mynd til að sjá hana betur.

Hotels

Hótelin sem ég hef verið á í Barcelona eru Meliá Sky, Eurostars Grand Marina og Negresco Princess – heimasíðurnar þeirra eru linkaðar í nöfnunum. Ég get algjörlega mælt með þeim öllum, en þau hafa samt mismunandi kosti. Melia Sky er staðsett frekar langt frá miðbænum, svo það er í rólegra hverfi og maður þarf að taka metro eða taxa á flesta staði. Metroið er samt mjög auðvelt og það er stöð rétt fyrir aftan hótelið. Í göngufæri frá því er samt mollið sem ég fer alltaf í og heitir Diagonal Mar. Í sama hverfi eru líka bæði Marriot og Hilton hótel sem eru góður kostur fyrir þá sem vilja vera nær ströndinni en miðbænum. Meliá er 5 stjörnu og bíður upp á frábær spa og flott morgunverðarhlaðborð, og herbergin eru virkilega flott. Grand Marina er staðsett á höfninni fyrir neðan Römbluna, og það tekur bara um 10-15mínútur að labba upp að henni. Það er líka lítið moll hinumegin við sjóinn, þar sem er hægt að kíkja í búðir eða fá sér að borða.Staðsetningin er æðisleg og það er ótrúlega fallegt útsýni yfir höfnina og borgina. Sundlaugin á þakinu er mjög fín og nóg pláss fyrir sólbekki, og svo breytist veröndin í geggjaðan rooftop bar á kvöldin þar sem er yndislegt að sitja og horfa yfir sjóinn og borgina. Þegar við fórum svo núna langaði okkur að vera staðsett ennþá meira miðsvæðis og völdum þessvegna Negresco Princess hótelið, en það er rétt hjá Placa de Catalunya sem er torgið sem tekur við efst á Römblunni. Staðsetningin var frábær og við gátum labbað flest sem við vildum, nema þegar við fórum eitthvað lengra eins og á ströndina eða í Diagonal Mar mollið. Á þakinu var sundlaugin sem þið sjáið hér að ofan, með æðislegt útsýni yfir miðborgina. Við sundlaugina er líka bar þar sem er hægt að fá mat á kvöldin, en það eina sem við hefðum viljað væri meira pláss fyrir sólbekki, svo fyrir þá sem plana að liggja í sólinni er gott að hafa það í huga. Herbergin voru ótrúlega nútímaleg og flott, og hótelið sjálft virkilega snyrtilegt og fallegt. Fyrir þá sem leita sér að extra miklum lúxus er W hótelið eitt það flottasta sem ég hef séð, og mig dauðlangar að gista þar næst.

La Rambla og Placa de Catalunya

Fyrir þá sem hafa ekki komið áður til Barcelona mæli ég með því að byrja á því að kíkja á Römbluna. Það er svona “Laugavegurinn” og þar er alltaf fullt af fólki og mikil stemming. Ramblan liggur frá torginu og niður í átt að höfninni. Þar eru fullt af búðum og veitingastöðum, þó ég mæli með að fara aðeins út fyrir Römbluna til að borða þar sem staðir þar eru oft frekar túristamiðaðir og dýrari en aðrir. Það þarf líka að passa sig á götusölunum sem leynast á hverju horni, og ekki geyma evru-troðið veski í rassvasanum. Samhliða Römblunni er önnur gata sem er með Flagship búðum í keðjum eins og H&M, Zara, Behrska, Pull&Bear og fleira sem verslunarþyrstum íslendingum finnst oftast mjög gaman að kíkja í. Efst á Römblunni við hliðina á torginu er svo lítið “moll” (varla hægt að kalla það moll, meira eins og smá verslunarklasi) þar sem er t.d. Sephora og Urban Outfitters. Ég mæli svo hiklaust með að kíkja á Römbluna að kvöldi til, jafnvel setjast niður og fá sér kokteil og fylgjast með mannlífinu. Placa de Catalunya er svo torgið sem er efst, ótrúlega fallegt, stórt torg umvafið blómum og gosbrunnum. Við torgið stoppa til dæmis túristarútur sem hægt er að fara í, og við gerðum einmitt í fyrsta skipti núna. Ég mæli algjörlega með því að kíkja í svoleiðis rútu fyrir þá sem vilja sjá meira af borginni. Maður áttar sig mun betur á hvernig borgin er þegar maður fer í svona rútu, og það er líka sniðugt að nýta hana sem ferðamáta ef maður skipuleggur daginn þannig. Hún fer til dæmis í La Sagrada Familía og Park Güell, og það er upplagt að taka hana á þessa staði ef mann langar á annað borð að skoða þá!

La Sagrada Familía

Það er alveg stranglega bannað að sleppa því að kíkja á La Sagrada Familía kirkjuna hans Gaudí þegar maður fer til Barcelona. Kirkjan er fallegasta mannvirki sem ég hef augum litið og ég sver að ég gæti horft á hana í marga daga. Ég fór í fyrsta skipti núna inn í kirkjuna, og það var alveg dásamleg upplifun. Það er alveg hægt að horfa á hana bara utan frá en að fara inn var ennþá skemmtilegra. Það kostar eitthvað um 15 evrur, og ég mæli með að bóka fyrirfram á netinu, þar sem það er mjög oft uppselt.

Park Güell

 

Annað guðdómlegt mannvirki sem ég mæli ekki með að láta framhjá sér fara er Park Güell.  Garðurinn er einn fallegasti staður sem ég hef komið á og þar er yndislegt að fá sér göngutúr og skoða í rólegheitunum. Garðurinn er staðsettur mjög ofarlega í Barcelona og útsýnið yfir borgina fæst svo sannarlega ekki keypt. Það kostar um 6 evrur að fara inn, og ég mæli líka með að bóka þá heimsókn fyrirfram á netinu þar sem oft er uppselt og garðurinn er ekki beint í göngufæri frá flestum stöðum. Við fórum frekar seint um kvöld, en ég mæli með því að fara ekki of seint til að hafa pottþétt nóg tíma til að skoða allt.

Beaches

Við Barcelona eru nokkrar strendur, og þær eru svolítið mismunandi eftir því hvernig strönd maður hefur áhuga á. Google gefur ykkur góðar upplýsingar um hvernig þið veljið strönd, en við fórum á Platja del Bogatell. Þar eru mikið af veitingastöðum og nóg af sólbekkjum og slíku. Ströndin er mjög snyrtileg og alls ekki of mikið af fólki þar, svo ég get algjörlega mælt með henni. Það kostar um 10 evrur að leigja sólbekk þar, og það er gott úrval af matsölustöðum.

Barcelona Zoo

Barcelona Zoo er staðsettur ekki svo langt frá miðbænum, og við hefðum jafnvel getað labbað þanga frá hótelinu okkar (þó við höfum tekið taxa). Þangað er mjög gaman að koma og þar má sjá öll helstu dýr. Apa og górillur, sæljón, sebrahesta, tígrisdýr, ljón og gíraffa, og svo mætti lengi telja. Aðgangurinn var eitthvað um 20 evrur, og maður fær alveg ágætlega mikið fyrir peninginn þar sem þarna eru flest dýr sem hægt er að biðja um. Eina sem ég hef útá þennan dýragarð að setja samanborið við aðra sem ég hef farið í, var kannski að það var ekkert svo mikið af svona “interaction” við dýrin í boði, en þið ættuð að vita að það er eitthvað sem undirrituð gefur mikið fyrir.

Shopping

Fyrir þá sem velta fyrir sér hvar best sé að versla mæli ég með Diagonal Mar mollinu, og svo bara miðbænum! Búðirnar í götunni til hliðar við Römbluna eru frábærar, og ég versla yfirleitt mest þar. Það er ágætt að hafa í huga að þar er yfirleitt allt stappað af fólki seinnipartinn og á kvöldin svo fyrir þá sem þurfa verslunarfrið er gott að koma á morgnanna. El Corte Ingles er svona Macy’s eða Nordström Spánar, risastór department store verlsun þar sem hægt er að kaupa merkjavörur – föt, snyrtivörur og fylgihluti. Það er til dæmis ein svoleiðis við Placa de Catalunya og svo eiginlega bara út um allt. Fyrir þá sem leita að meiri High End búðum eins og Tiffany’s, Gucci eða Michael Kors þá mæli ég með að labba upp Passeig de Gracia sem liggur upp frá torginu.

Eating

Það er einn staður sem á sérstakan stað í hjarta mínu og þið verðið eiginlega að lofa mér að fara þangað ef þið farið til Barcelona! Hann heitir Pizza Emporio og er á nokkrum stöðum víðsvegar um Spán. Í Barcelona er til dæmis einn rétt fyrir ofan Römbluna, og svo við hliðina á La Sagrada Familía. Staðurinn er ítalskur og bíður upp á bestu pizzur í heimi, ásamt virkilega góðum pasta réttum. Mig dreymir um þessar pizzur akkúrat núna og ég gæfi mikið fyrir eina örþunna með gorgonzola og rucola. Annar staður sem er í fínni kantinum og ég mæli eindregið með er Citrus, sem er staðsettur á Passeig de Gracia, rétt fyrir ofan Placa de Catalunya. Þar er hægt að fá mat innblásinn af miðjarðarhafinu, og ég mæli eindregið með kjúklingnum í sesamhjúpnum, hann er algjört ljúfmeti! Athugið að eins og margir aðrir spænskir staðir er Citrus lokaður á milli 16:30 og 19:30. Það er sniðugt að panta borð en oft er samt laust og alveg hægt að droppa við.

IMG_3508

Vonandi nýttist þessi litli leiðarvísir þeim sem stefna á að heimsækja Barcelona, en eins og þið sjáið örugglega þá mæli ég eindregið með þessari yndislegu og fallegu borg.

xxx

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: