Currently: In my Shower

Vörur í færslunni eru fengnar að gjöf.
Mig langaði að deila með ykkur nokkrum vörum sem eru akkúrat núna staddar í sturtunni minni!
Fyrst er það sjampó og næring frá merkinu Maria Nila, en það hefur örugglega ekki farið framhjá ykkur að ég er mjög hrifin af merkinu. Heal er ný lína frá þeim, sem kemur til landsins eftir sirka tvær vikur, en ég var svo heppin að komast í prufueintökin af sjampói og næringu. Ég var nefnilega alveg að missa mig úr spenningi þegar ég sá þessa nýju línu, hún hljómaði eins og akkúrat það sem ég er að leita að. Þessi lína er sérstaklega gerð til að viðhalda heilbrigðum hársverði, og með því vinna gegn hárlosi og auka hárvöxt. Eins og ég hef oft talað um áður þá glími ég við mjög mikið hárlos, svo allt sem hjálpar til við það finnst mér frábært. Ég er líka alltaf spennt fyrir öllu sem eykur hárvöxt, enda finnst mér ég vera búin að reyna að safna hárinu mínu í ár en það gerist ekki neitt – en við sjáum til hvað gerist núna! Tvennan inniheldur meðal annars Aloe Vera, E-vítamín og amínósýrur, sem bæði stuðla að heilbrigðum hársverði og styrkja hárið. Eins og allar vörur frá Maria Nila er sjampóið og hárnæringin vegan og cruelty free. Ég er búin að prófa í nokkur skipti, og hingað til er ég virkilega ánægð með þessa línu. Sjampóið gefur mér nógu góða lyftingu og þyngir alls ekki hárið, og næringin nærir mjög vel. Í línunni kemur líka maski, sem ég hlakka til að prófa þegar hann kemur til landsins!
Um daginn eignaðist ég nýja vöru frá First Aid Beauty, en það er svokallað ‘body polish’. Polish er ekki jafn gróft og skrúbbur, og fægir húðina frekar en að skrúbba hana. Þessi vara inniheldur kol, en það hefur verið mikið kol-æði í snyrtivöruheiminum upp á síðkastið. Kol hreinsa húðina virkilega vel og losa hana við eiturefni. Formúlan er mjög þykk og leirkennd, en þegar hún kemst í snertingu við vatn verður hún þynnri og freyðir aðeins. Auk þess að innihalda kol er argan olía, hunang og E-vítamín í formúlunni sem að róar og mýkir húðina um leið og hún er fægð og verður áferðarfallegri. Þessi vara hentar því líka fyrir þá sem eru með viðkvæma og þurra húð, en ég er einmitt með frekar þurra húð til dæmis á leggjunum, og þá finnst mér frábært að nota þetta til að losna við þurra bletti án þess að skrúbba húðina of fast. Þetta er líka frábært til að undirbúa húðina fyrir brúnkukrem!
Svo er það sturtugelið frá Moroccanoil! Ég er ótrúlega hrifin af allri Moroccanoil Body línunni, en sturtugelið kom nýlega inn í hana. Það er með upprunalega Moroccanoil ilmnum, sem er algjörlega einn af mínum uppáhalds ilmum. Gelið er þykkt og ótrúlega mjúkt, en freyðir þegar því er nuddað á húðina. Formúlan inniheldur argan olíu, og gelið mýkir húðina um leið og það hreinsar hana. Mér finnst fátt dásamlegra en að baða mig upp úr Moroccanoil lyktinni, en gelið fékk að koma með í töskunni til Boston um helgina. Það er fátt sem jafnast á við að fara upp á herbergi og í Moroccanoil sturtu eftir langt flug – algjörlega dásamlegt.
xxx
Pingback: Uppáhalds: Í júní! | gyðadröfn