Uppskrift: Sumarlegur og hollur kalkúnaborgari

Færslan er ekki kostuð.
Það hefur heltekið mig grillæði þessa dagana. Mig langar helst að grilla allt og mér finnst eins og sumarið komi ennþá fyrr þegar grilllyktin er í loftinu. Í gærkvöldi grilluðum við kalkúnabringur, og ég átti afgang af þeim og gerði dýrindis kalkúnaborgara í hádeginu í dag. Mér datt í hug að deila með ykkur uppskriftinni!
Kalkúnabringan sem ég notaði var marineruð í teriaky og sesam, og var dásamlega góð. Ég mæli alveg hiklaust með því að skella svoleiðis á grillið, hún hélst mjög safarík! Ég notaði svo nokkra hluti úr ísskápnum í borgarana, en ég rakst á ótrúlega girnilegt mangó í Hagkaup í gær sem mér fannst tilvalið. Ég notaði svo lífskornabollurnar frá Myllunni sem hamborgarabrauð, þær finnst mér svo ótrúlega góðar og aðeins hollari en venjuleg brauð. Ég er búin að vera með æði fyrir mangó-karrý skyrsósunni sem þið sjáið á myndinni. Ég fæ hana í Hagkaup og hún er góð með mjög mörgu, frábær með lax til dæmis! Ég átti lítið stykki af Primadonna ost sem mér finnst ótrúlega góður, svo ég skar nokkrar litlar sneiðar af honum og setti með – ótrúlega gott!
Þú þarft:
Eldaðan kalkún (eða kjúkling)
Lífskornabollu (eða annað brauð)
Mangó-karrý skyrsósu
1/2-1 lítið avocado
1/4 af mangó
Paprika
Ostur – ég notaði Primadonna
Ég byrjaði á að skera kalkúnabringuna niður í þunnar sneiðar og henda í heilsugrillið mitt. Þegar hann var orðinn heitur í gegn og kominn með grillrendur setti ég svo brauðið í grillið í örstutta stund. Næst tók ég svo neðri partinn af brauðinu úr grillinu, en setti ostinn á efri partinn og leyfði honum að hitna aðeins á opnu grillinu. Ég raðaði svo einu af öðru á brauðið, eins og þið sjáið á myndinni hér að neðan.
Verði ykkur að góðu!
xxx