5 hlutir á fimmtudegi
Færslan er ekki kostuð.
Mig langaði til að byrja með nýjan lið hérna á blogginu, þar sem ég segi ykkur frá fimm hlutum úr mínu dagsdaglega lífi. Þessar færslur verða mjög “casual”, og munu innihalda allskonar mismunandi hluti – ég vona að þið hafið gaman af!
Þennan gullfallega Kähler vasa fékk ég í afmælisgjöf frá vinkonum mínum í janúar. Þessi fallegi bleiki litur passar fullkomlega við litapallettuna á heimilinu – en þar eru ljósir bleikir litir mjög áberandi. Hann er ennþá fallegri með ferskum blómum, en flesta daga prýðir þessi gervivöndur hann.
Í gær fór ég á skemmtilegan fund þar sem ég fékk að kynnast hárvörumerkinu Maria Nila sem er nýkomið til landsins. Umbúðirnar eru draumi líkastar, og mig langar helst að hafa þær alltaf inni í stofu – þær eru svo fallegar! Ég er ótrúlega spennt að prófa, en vörurnar eru allar Vegan og lausar við aukaefni eins og súlföt og paraben. Lyktin af þeim er líka dásamleg og svo er alltaf skemmtilegra að nota vörur í fallegum umbúðum!
Fyrir stuttu síðan eignaðist ég þetta Nike æfingaarmband fyrir símann minn. Það er svo sannarlega mun betra að hafa það á handleggnum en að stinga símanum ofan í buxnastrenginn eins og ég er búin að gera síðan seinasta svona armbandið mitt slitnaði. Þetta er bæði þægilegasta og flottasta svona armband sem ég hef átt, en efnið í því er mjög teygjanlegt og ég svitna ekki undir því.
Þórunn Ívars færði mér þennan dásamlega vatnsbrúsa úr Vila fyrir nokkrum vikum, og hann hefur ekki vikið frá mér síðan! Ég hef hann með mér allann daginn, en ég er alltaf að reyna að vera duglegri að drekka meira vatn. Vatnið er sérstaklega girnilegt í þessum brúsa og hann hefur aukið vatnsdrykkju mína margfalt!
Ég fer sjaldan út úr húsi án þess að hafa þessa þrjá hluti með mér. Michael Kors wristlet-ið mitt sem ég fékk að gjöf frá kærastanum þegar við vorum í Washington um áramótin. Úrið er einmitt líka gjöf frá Heiðari – það mætti halda að hann gefi mér bara hluti frá Michael Kors! Síminn minn er einstaklega fallegur í nýja marmarahulstrinu frá Black&Basic. Það er aðeins öðruvísi en það gamla, og mér finnst það ennþá fallegra!
xxx