Góð ráð: Þegar þú pakkar fyrir utanlandsferð!

Það eru alltaf nokkrar spurningar sem ég fæ oftar en aðrar í gegnum Snapchat. Ég er svona hægt og rólega að vinna í því að koma þeim öllum í færslur hérna á blogginu svo að svörin við þeim séu aðgengileg hér á blogginu. Ein mjög algeng spurning sem ég fæ, og fékk þá sérstaklega í sumar, var hverju maður ætti nú eiginlega að pakka með sér þegar maður væri að fara til útlanda. Það getur stundum verið vesen að pakka fyrir utanlandsferð án þess að gleyma neinu, og ég þekki það sjálf þar sem ég gleymi yfirleitt alltaf einhverju (einhverju lesist sem: tannbursta). Ég er orðinn nokkuð reyndur pakkari, þó ég væri seint talinn einhver pökkunarmeistari – þá luma ég á nokkrum hlutum sem er sniðugt að taka með. Ég setti upp smá lista, og ég skipti honum upp eftir því hvað fer í handfarangurinn, ferðatöskuna, og svo hvort þú ert að fara til sólarlanda eða í borgarferð. Það er auðvitað ómögulegt að setja hvern og einn einasta hlut á listann, en þetta er meira svona tékk listi fyrir þá sem eru að fara pakka til að kíkja hvort þeir séu að gleyma einhverju!

pakka1

Að mínu mati eiginlega mikilvægasta taskan: handfarangurinn! Sérstaklega ef þú átt fyrir höndum langt flug..

1. Kósýsokkar – eða flugvélasokkar eins og ég kalla þá. Okei sko mér finnst gott að fara úr skónum í flugvél, og það hlýtur einhver að tengja. Það er ekkert verra en að vera fastur í lokuðum skóm í löngu flugi. Hinsvegar er ég yfirleitt aldrei í sokkum innanundir skónum mínum (ekki spyrja afhverju, eða jú annars, svarið er: afþví mér finnst það óþægilegt), og það er ekkert voðalega vinsælt að vera á táslunum í flugvélinni. Þessvegna finnst mér nauðsynlegt að vera með par af kósýsokkum sem ég get farið í, og það gerir líka flugferðina ennþá meira kósý.

2. Svefngríma: Mér finnst flugvélar alveg einstaklega góður staður til að sofa. Ég sef yfirleitt mjög vært með hvíta, mjúka ferðakoddann minn (sem ég gleymdi að setja á listann!), og svefngríman hjálpar mér að sofa ennþá betur í vélinni.

3. Snúra fyrir símann: Flestar flugvélar eru núna með USB tengi, þar sem maður getur hlaðið til dæmis símann sinn. Það er því sniðugt að vera alltaf með snúruna, svo maður geti lent í nýju landi með fullhlaðinn síma til að taka fullt af myndum.

4. Heyrnartól: Aldrei að gleyma heyrnartólum! Í sumum flugum er auðvitað boðið uppá svona flugvélaheyrnatól (eða þau seld), en þau eru yfirleitt bæði léleg og óþægileg, svo það er betra að hafa sín eigin.

5. Hárteygja: Ég hef aðeins of oft gleymt að hafa með mér hárteygju og verið ótrúlega pirruð á hárinu mínu í endanum á fluginu, til að setja ekki hárteygju á listann. Must að hafa allavega eina svona í töskunni.

6. Varasalvi: Ég hef áður sagt ykkur að ég fer aldrei út úr húsi án þess að vera með varasalva á mér, og ég myndi svo sannarlega ekki heldur fara í flug án þess að hafa hann með. Sérstaklega þar sem loftið í vélunum er svo þurrt að maður verður extra þurr á vörunum.

7. Tyggjó: Þegar ég fór í mína fyrstu utanlandsferð með fjölskyldunni þegar ég var lítil, þá man ég alltaf eftir því að mamma sagði að ég skyldi fá mér tyggjó þegar vélin væri að fara af stað svo ég myndi ekki fá hellur fyrir eyrun. Ég man að um leið og ég settist í sætið mitt byrjaði ég að tyggja af miklum ákafa, en var orðin svo þreytt í kjálkanum þegar vélin tók loksins á loft að ég held það hafi ekkert virkað. En það er allavega mjög gott að hafa tyggjó til að reyna að minnka hellurnar við flugtak!

8. Augndropar: Ég fer aldrei í flug án þess að hafa augndropa með mér! Ég er með viðkvæm augu, og þegar þau eru búin að vera í flugvélaloftinu í smástund þá verða þau þurr og mig byrjar að klæja. Augndropar bjarga mér alltaf og það er eins og maður sé að gefa þyrstu augunum sínum að drekka þegar maður setur í sig augndropa eftir í endann á löngu flugi..svo gott.

9. Ziplock pokar: Síðast en ekki síst eru það svona endurlokanlegir pokar til að geyma allann vökvann sinn í. Það er reyndar oftast hægt að fá svona þegar maður fer í gegnum öryggishliðið, en mér finnst best að hafa þá bara tilbúna með vökvanum í, sérstaklega þegar maður er á flugvelli erlendis. Munið að bæði varasalvinn og augndroparnir þurfa að fara í svona poka, og ef þið eruð með einhverjar fljótandi snyrtivörur eða krem!

pakka2

Okei þetta er bara svona basic hlutir sem gott er að fara yfir hvort að maður sé ekki örugglega með í töskunni!

1. Föt: Okei ég veit alveg að það er enginn að fara að gleyma að taka með sér föt..nema einhver sem væri sögulega lélegur að pakka. Það er auðvitað bara mismunandi hvaða föt hver tekur með sér, en það er allavega alltaf gott að muna eftir þægilegum ferðafötum fyrir heimferðina.

2. Nærföt: Ekki gleyma nærfötum! Ég hef nefnilega furðulega oft gleymt einhverju jafn basic og þeim, eða tekið of fá nærföt með fyrir dagana sem ég er úti. Maður kaupir sér kannski nærföt úti en ég vill helst alltaf þvo þau áður en ég nota þau, svo ég tek með mér öll þau sem ég mun þurfa.

3. Kælandi fótagel: Ég verð alltaf svo ótrúlega þrútin og þreytt í fótunum þegar ég er að ferðast, bæði eftir flugvélina, og svo oft er maður að labba ótrúlega mikið þegar maður er að koma sér á staðinn sinn. Það er algjör draumur að vera með kælandi fótagel í töskunni og geta skellt því á sig þegar maður lendir og er kominn á áfangastað.

4. Snyrtidót: Mikilvægt. Eða ekki, þið ráðið.

5. Rakamaski: Algjört must eftir flugið að mínu mati. Enn og aftur kem ég inná þetta þurra loft sem er í flugvélunum, ég finn rosalega mikið fyrir því sjálf, en ég veit ekki hvort að ég sé eitthvað sérstaklega viðkvæm fyrir því. Ég verð allavega alltaf rosalega þurr eftir flug, og það fyrsta sem ég geri þegar ég er komin uppá hótelherbergi er að setja á mig rakamaska og bera á mig nærandi bodylotion.

6. Hleðslutæki: Fyrir allt sem þú ert með sem þarf hleðslu. Tölvu, síma, ipad..

7. Sjampó og hárnæring: Ef að maður er að fara að gista á hóteli, er yfirleitt hægt að fá flestar svona baðherbergisvörur eins og bodylotion, sturtusápu og sjampó. Sjampóin sem eru á hótelum eru samt yfirleitt alltaf eitthvað svona sem hentar fyrir alla og oft er ekki hárnæring, svo mér finnst nauðsynlegt að taka mitt eigið. Ég myndi aldrei nenna að vera með leiðinlegt hár í fríinu mínu! Ef að það eru til ferðaútgáfur af sjampóinu þínu er það auðvitað stór plús!

8. Límband: Það var nú örugglega einhver sem rak upp stór augu þegar hann sá límband á myndinni. Ég pakka alltaf með mér límbandi, vegna þess að áður en ég set allar snyrtivörur og vökva eins og til dæmis sjampó, hárnæringu, sólarvörn eða augnhreinsi í ferðatöskuna mína þá lími ég fyrir svo það geti ekki mögulega opnast í töskunni. Hversu óendanlega pirrandi er að mæta uppá hótel, opna töskuna, og komast að því að sjampóbrúsinn þinn opnaðist á leiðinni og allt í töskunni er útatað í sjampói? Þegar ég lenti í því að naglalakkshreinsirinn minn opnaðist og öll fötin mín lyktuðu af acentoni, vissi ég að ég yrði að gera eitthvað til að koma í veg fyrir þetta í framtíðinni. Límbandið kemur í veg fyrir þess slys og það er best að hafa það með sér svo þú getir límt aftur fyrir það sem þú hefur notað áður en þú ferð heim.

pakka3

Jæja þá er komið að því sem mér finnst nauðsynlegt að hafa með mér í borgarferðina!

1. Fínni föt: Þegar maður er staddur í fallegri borg langar mann oft að klæða sig aðeins upp einhver kvöldin, og kíkja kannski á fínan veitingastað eða skemmtilegan kokteilbar. Þá er leiðinlegt að vera bara með íþróttafötin sem eru þægileg til að vera í þegar maður er að skoða sig um, svo mér finnst alltaf must að hafa með mér svona aðeins fínni föt, og kannski fallega hælaskó við.

2. Litla tösku: Ohh ég hef svo oft gleymt að hafa með mér litla þægilega tösku til að hengja utan um sig þegar maður er að fara í verslunarferð. Þegar maður er að fara að versla og veit að maður er að fara að koma heim með fullt af pokum, nennir maður ekki að bæta einhverri stórri tösku við það, en maður nennir heldur ekki að halda bara á veskinu sínu. Það er því algjörlega ómissandi að vera með litla þægilega tösku sem fer ekkert fyrir, og rúmar símann mans og veskið (og plástrana nr.4!).

3. Þægilega íþróttaskó: Let’s face it..eftir nokkra klukkutíma verslunarferð, þá gæti þér ekki verið meira sama um hvernig þú lítur út, þig langar bara að vera í þægilegum skóm. Þægilegir íþróttaskór eru mjög mikilvægir í svona ferðir, sama hvernig þeir líta út!

4. Hælsærisplástrar: Þægilegu íþróttaskórnir þínir geta fljótt orðið að gangandi helvíti ef þú færð hælsæri í þeim. Hælsærisplástrar eru nauðsyn í litu töskuna, en þeir bjarga manni þegar maður á eftir að skoða þriggja hæða H&M en er kominn með hælsæri. Maður fær einhvernveginn miklu oftar hælsæri í útlöndum, kannski útaf því að það er heitara og maður svitnar meira, og svo er maður kannski oft í skóm sem maður gengur kannski ekkert endilega í heima á Íslandi..og já svo kannski líka bara gengur maður yfirhöfuð miklu meira þegar maður er í útlöndum. Must!

pakka4

Fyrir sólarlandaferðina eru nokkrir hlutir sem gott er að huga að…

1.Sólgleraugu: Frekar basic.

2. Þægilega opna skó: Mér finnst alltaf must að vera með aðra opna skó heldur en til dæmis flip flops með mér þegar ég fer til sólarlanda. Maður labbar oft mjög mikið um, en vill kannski ekki vera í lokuðum íþróttaskóm ef það er mjög heitt, svo ég kýs miklu frekar þægilega sandala.

3. Sólarvörn: Mér finnst alltaf svo gott að kaupa sólarvörn áður en ég fer út, bara til að vera viss um að fá nákvæmlega þá tegund sem ég vil, og þá er líka bara allt tilbúið. Ég kaupi yfirleitt alltaf Lancaster og finnst best að gera það bara í Fríhöfninni!

4. After Sun: Líka mjög þægilegt að hafa þetta tilbúið þó að það sé auðvitað ekkert mál að kaupa það úti. Það er alveg jafn mikilvægt að hugsa um húðina eftir sólina eins og í sólinni, og ég set alltaf á mig gott kælandi gel, og svo sérstakt After Sun krem líka.

5. Varasalvi með sólarvörn: Maður þarf að hugsa extra vel um varirnar í sólinni þar sem þær eru ótrúlega viðkvæmar, og geta brunnið mun fyrr en aðrir staðir í andlitinu. Ég er þessvegna alltaf með góðann varasalva með sólarvörn, Baby Lips varasalvarnir eru til dæmis með SPF20, og svo eru alveg til varasalvar með hærri vörn.

6. ….: Ég bara sleppti tölunni 6 þegar ég var að búa til myndina, kannski afþví ég er alltaf svo mikið að passa mig að segja ekki töluna á íslensku þegar ég er í útlöndum!

7. Strandhandklæði: Þetta er nú reyndar eitthvað sem ég kaupi yfirleitt bara á staðnum, og finnst það oft vera skemmtileg minning um ferðina. En ef þið eigið fullkomið strandarhandklæði er tilvalið að kippa því með!

8. Bikiní/sundbolur/sundföt: Ég er alltaf með nokkur bikiní þegar ég fer til sólarlanda. Maður er megnið af ferðinni í bikiní, og mig langar alveg eins að skipta um það eins og föt! Það er að minnsta kosti ágætt að hafa eitt sem þú ætlar að nota á ströndinni og má verða pínu druslulegt í sandinum, og annað sem þú vilt kannski hafa á sundlaugarbakkanum.

9. Flip Flops: Must ef þú ætlar á ströndina! Einu skórnir sem þú getur skolað sandinn af án þess að þeir verði blautir og óþægilegir. Gætir reyndar notað Crocs líka…en plís ekki gera það.

10. Sólarvörn fyrir hárið: Annað sem er líka mikilvægt að hugsa um í sólinni: hárið. Það gleymist alltof oft ásamt vörunum. Hárið skemmist líka í sólinni og getur líka upplitast. Ég nota Miracle Hair Treatment frá Eleven fyrir hárið mitt í sólinni en svo eru líka til sérstök efni sem er bara sólarvörn og er fyrir hárið.

Vonandi nýtist þessi langi listi einhverjum! Mér finnst allavega gott að hafa hann núna á blogginu svo ég gleymi nú engu sjálf.

xxx

Færslan er ekki kostuð.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: