BOLD METALS
Jæja. Loksins. Loksins, loksins, loksins, get ég sagt frá því að Bold Metals burstarnir frá Real Techniques eru að lenda í verslunum hérna á Íslandi! Það var um áramótin sem ég skrifaði mína fyrstu færslu um þá, svo þetta hefur verið ansi löng og ströng bið. Ég var að sjálfsögðu jafn óþolinmóð og ég á að mér að vera, og gat ekki beðið lengur en nokkrar vikur áður en ég lét senda mér þá frá Bretlandi, svo ég er búin að nota þá í þónokkurn tíma núna. Ég er samt alveg að missa mig úr spenningi að geta loksins sagt frá því að þeir séu komnir og þið getið eignast þá!
Okei byrjum aðeins á því að horfa bara á þá..fyrir utan að vera frábærir í notkun þá eru þeir náttúrulega líka bara einstaklega fallegir. Ég gæti jafnvel gengið svo langt að segja að þetta væru fallegustu burstar sem ég hef séð, án þess að vera að ljúga neinu! Þetta er lúxusútgáfa af hinum venjulegu Real Techniques burstum, þar sem gæðin eru ennþá meiri og mikið er lagt í hönnun hvers bursta.
Sköftin á burstunum eru í þrem litum, alveg eins og burstarnir í grunnlínunni hjá Real Techniques. Það er svolítið þannig að Bold Metals litirnir tákna á “metallískann” hátt litina úr grunnlínunni. Gylltu burstarnir eru fyrir grunnförðun, rósagylltu fyrir fullkomna áferð, og þeir silfurlituðu fyrir augun.
Eitt af því sem mér finnst vera það allra besta við burstana, er að það er sérstök þynging fremst í þeim, sem þýðir að þeir sitja einstaklega vel í lófa. Þyngingin gerir það að verkum að burstinn er ekki að renna til, og helst á sínum stað við notkun. Skaftið mjókkar niður svo það er einstaklega þægilegt að halda á þeim, og þið fattið strax hvað ég er að meina þegar þið prófið að nota þá.
Burstarnir eru alls sjö talsins, þrír silfurlitaðir, tveir rósagylltir og tveir gylltir.
100 Arched Powder: Gyllti púðurburstinn er ólíkur öðrum púðurburstum að því leiti að hann er flatari, og útlínur háranna eru bogadregnar. Hann hentar fullkomlega fyrir hverskonar púður förðunarvörur, hvort sem það er laust púður eða pressað.
101 Triangle Foundation: Þessi farðabursti er þríhyrningslaga og er nokkurskonar 3D farðabursti. Hann hefur þrjár hliðar og það er auðvelt að nota hornin til að bera farða á svæði þar sem oft er erfitt að komast að, til dæmis krókana hjá nefinu. Áferðin sem næst með burstanum er bilaðslega falleg, og þegar ég sameina hann með farða með miklum ljóma í fæ ég alltaf fullkomna áferð!
300 Tapered Blush: Litli rósagyllti burstinn er orðinn einn af mínum uppáhalds. Hann hentar í svo ótrúlega margt! Hann er til dæmis fullkominn í highlighter, og til að slétta úr eða setja hyljara undir augunum. Oddurinn á honum gerir það að verkum að maður getur beitt honum betur en öðrum svipuðum burstum.
301 Flat Contour: Þessi bursti er draumur contoristans! Hann er akkúrat það sem maður þarf til að gera skarpar skyggingar, til dæmis undir kinnbeinin. Hann er rosalega þéttur og burstar vörunni þannig þétt á.
200 Oval Shadow: Þessi stóri augnskuggabursti er fullkominn base bursti til að bera grunn augnskuggalitinn á augnlokið. Hann er líka frábær til að bera augnskugga undir augabrún, förðunarvörur á smærri hluta andlitsins.
201 Pointed Crease: Ef þið ætlið bara að kaupa ykkur einn Bold Metals bursta..kaupið þennann. Þetta er hands down langbesti augnskuggabursti sem ég hef á ævi minni kynnst, en ég kalla hann byssukúluburstann. Lagið á hárunum er eins og á byssukúlu, sem gerir það að verkum að þú getur borið augnskugga í globus línuna, og dreift henni á sama tíma! Hann er því bókstaflega að spara þér alla vinnuna við að blanda endalaust upp úr globus línunni, því hann gerir það á meðan hann ber litinn á.
202 Angled Liner: Akkúrat það sem vantaði alltaf í Real Techniques grunnlínuna! Lítill, skáskorinn augabrúna eða eyeliner bursti. Persónulega nota ég þennan alltaf í augabrúnavörur, þar sem ég elska að nota smáa, þétta bursta í þær vörur. Hann er líka frekar stífur og gefur ekki eftir sem er akkúrat það sem maður vill.
Að mínu mati eru góðir burstar algjörlega undirstaða fallegrar förðunar, og svo gera fallegir burstar förðunina ennþá skemmtilegri! Ég mæli svo sannarlega með að aðrir burstaelskendur og förðunarfíklar kíki á þessa gullfallegu bursta, og ég varð að minnsta kosti sannarlega ekki svikin!
xxx
Vörurnar sem skrifað er um voru bæði fengnar sem sýnishorn og keyptar af höfundi sjálfum.
Í hvaða búðum er hægt að fá þá!! ?? 😁😁
LikeLike
þeir eru á leiðinni á stærstu sölustaði Real Techniques og eru til dæmis komnir upp í Kjólum og Konfekt og Hagkaup Skeifu 🙂
LikeLike