Uppskrift: Blómkálspizza og blómkálstortilla
Eins og ég lofaði ætla ég að deila uppskriftinni af blómkálstortillunni sem ég hafði með sætkartöflusúpunni í færslunni í fyrradag, HÉR. Uppskriftina er hægt að nota á marga vegu, en ég hef til dæmis oft gert mér pizzabotn, og búið þá til einn stórann hring úr allri uppskriftinni. Þegar ég geri tortillur geri ég hringina bara aðeins minni, og bý til 4 minni botna úr einni uppskrift (eins og með sætkartöflusúpunni). Það er hægt að nota hvaða krydd eða kryddjurtir sem maður vill í botninn, og það er gaman að prófa sig áfram með það. Uppskriftin er mjög einföld og notast við örbylgjuofn til að gufusjóða blómkálið, svo það tekur engann tíma!
Þú þarft:
3/4 af stórum blómkálshaus (sirka 400gr.)
2 egg
Salt og pipar og önnur krydd eftir smekk.
Byrjið á að hita ofn á undir og yfir hita í 190°. Svo byrja ég á að skera blómkálshausinn niður í stóra bita, og sker stærstu stilkana frá.
Næst set ég blómkálið í blandara, og blanda þar til það er orðið nokkuð fínt, svipað og ósoðin hrísgrjón. Næst set ég það í skál, inn í örbylgjuofn á hæsta hita í 2 mínútur, tek það svo út og hræri vel í skálinni, og svo fer það aftur inn í örbylgjuofninn í 2 mínútur til viðbótar. Næst tek ég það út úr örbylgjuofninum og strengi klút eða viskustykki yfir skál, og set blómkálið þar ofan á.
Næst kreisti ég allt vatnið úr blómkálinu yfir skálinni, en passið að það er mjög heitt, svo ekki brenna ykkur! Ég reyni að ná sem allra mestu vatni úr því áður en það er sett aftur í nýja skál.
Næst blanda ég eggjum, salti, pipar, og öðrum kryddjurtum við. Hérna er ég að nota vorlauk og steinselju, en það er til dæmis mjög gott að nota chillí, laukduft, hvítlauk, engifer eða bara hvaða krydd sem ykkur finnst gott!
Næsta skref er að hella “deiginu” á bökunarplötu, sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Ég breiði það út og bý til hring, en passið að það verði ekki of þunnt. Svo fer platan inn í heitann ofninn í 10 mínútur, og svo tek ég hana út, sný botninum við, og set hana svo aftur inn í 5-7 mínútur í viðbót. Næst tek ég botninn út og leyfi honum að kólna aðeins. Svo hita ég pönnu á hæsta hita (það þarf ekki að nota olíu á pönnuna) og steiki botninn örstutt báðu megin svo hann verði aðeins meira stökkur!
Hérna er ég búin að nota botninn sem grunn fyrir pizzu, og setti svo fullt af grænmeti, sósu og ost ofan á og bakaði aðeins lengur. Svo endaði ég á að setja fullt af fersku ruccola salati ofan á, nammnammnamm!
xxx