Uppskriftir: Heimagerðar jólagjafir

Seinustu ár hef ég alltaf búið til sjálf stóran hluta af jólagjöfunum sem ég gef. Ekki bara er það oft ódýrara, heldur finnst mér líka svo ótrúlega skemmtilegt að dunda mér í desember og föndra gjafir. Plús að það er alltaf gaman að gefa eitthvað sem maður hefur sjálfur lagt ást og vinnu í! Svo eru líka alltaf einhverjir sem eiga allt, og þá er tilvalið að útbúa fallega persónulega gjöf. Mig langaði að gefa ykkur nokkrar hugmyndir af jólagjöfum sem hægt er að búa til sjálfur. Ég ætlaði að skipta þessari færslu upp í nokkrar minni færslur, en þar sem það er annar í aðventu á morgun og margir örugglega að klára jólagjafirnar ætla ég bara að sýna ykkur þær allar í einu. Þær eru allar mjög einfaldar og skemmtilegar að búa til!
Hugmynd 1: Heimagerður skrúbbur
Eitthvað sem er alltaf gaman að gefa finnst mér vera góður heimatilbúinn líkams-skrúbbur. Ég bjó til kókosolíuskrúbb og setti hann í smá jólabúning svo hann er mjög skemmtileg jólagjöf. Krukkuna fékk ég í Söstrene Grene í gær og það eru til ótal stærðir og tegundir af svona krukkum þar. Þessi er fullkomin fyrir skrúbb handa einum og uppskriftin er í samræmi við það, en svo er auðvitað hægt að gera stóra uppskrift og setja í margar krukkur.
Jólaskrúbbur:
1dl Kókosolía
180gr Púðursykur
1 msk Brúnkökukrydd eða ykkar blanda af jólakryddum
1 tsk. Kanill
Mér finnst best að hita kókosolíuna aðeins áður en ég hræri sykrinum við, ég set hana inn í örbylgjuofn í svona 20sek. Öllu hrært saman og látið kólna áður en krukkunni er lokað. Ég notaði tilbúna kryddblöndu af kanil, negul og engifer sem heitir brúnkökukrydd út í búð, en það má alveg nota bara hvaða krydd sem þið viljið sem ykkur finnst vera jólaleg. Ég setti svo auka kanil til að fá ennþá meiri kanil lykt.
Hugmynd 2: Persónulegt Kerti
Eins og ég sagði ykkur frá þegar ég sýndi ykkur myndir af jóla stofunni minni þá bjó ég til kerti eins og þetta í fyrra, og gaf nokkrum. Það er minnsta mál í heimi og það eina sem þarf er venjulegt hvítt (eða í hvaða lit sem er) kerti, servíetta með fallegri mynd og svo servíettulím með brunavörn, sem fæst í föndurbúðum. Það er líka til sérstakur pappír sem er hægt að prenta á myndir og setja utan um kerti, og margir hafa búið til mjög falleg kerti á þann hátt. Konurnar í föndurbúðunum eru oftast sérfræðingar í þessu og geta bent á allskonar sniðugt sem hægt er nota til að búa til falleg kerti!
Hugmynd 3: Heitt-súkkulaði-sett
Ein hugmynd sem ég hef stundum rekist á á Pinterest og hefur alltaf fundist svo ótrúlega krúttleg, er að gera svona heitt-súkkulaði-sett. Þetta er eitthvað sem er ótrúlega gaman að fá og er eiginlega svona ávísun á kósýkvöld með heitu súkkulaði og sykurpúðum. Það eina sem sá sem fær gjöfina þarf að gera er að bæta við heitri mjólk! Ég hef séð svona skeiðar með súkkulaði í Hagkaup einhverntímann en ég ákvað að búa mína til sjálf, og það er alls ekkert mál.
Það sem ég notaði voru sílíkonform sem eru ætluð fyrir litlar cupcakes, og ég fékk í Kitchen Library í Smáralind, en það er líka hægt að nota ísmolaform eða hvaða form sem er fyrir súkkulaðið. Bollinn er úr Tiger en litla krukkan, skeiðin, rörin og sykurpúðarnir úr Söstrene Grene. Það er hægt að fá fallega bolla á mörgum stöðum og ég hef til dæmis oft séð virkilega sæta bolla í Indiska!
Ég notaði sirka 50gr af súkkulaði, sem ég bræddi og hellti í formið. Svo setti ég skeiðina ofan í og hélt við hana í smástund, en svo stóð hún alveg sjálf og ég setti formið með skeiðinni inn í ísskáp í 30mín. Ef að súkkulaðið er of lint og skeiðin helst ekki uppi, er hægt að nota eitthvað eins og mælikönnu sem er breiðari að ofan, til að halda við skeiðina, en hún þarf yfirleitt ekki mikinn stuðning. Þegar súkkulaðið er harnað er það tekið úr forminu og pakkað inn í plast.
Ég notaði pappaspjald sem ég pakkaði inn í jólapappír til að láta settið standa á, og svo er fallegt að pakka öllu inn í sellófan og gefa svoleiðis. Heitt-súkkulaði-settið er örugglega ein skemmtilegasta gjöf sem ég hef búið til og það verða sko einhverjir sem fá svona kósý kvöld frá mér í ár!
Hugmynd 4: Persónulegur Konfektkassi
Að lokum langaði mig að sýna ykkur það sem ég gaf mörgum í fyrra. Ég bjó til persónulega konfektkassa með 9 mismunandi konfektmolum fyrir hvern og einn, en hver kassi var með 2 hæðir, eða 18 mola. Ég ætla ekkert að ljúga að ykkur..þetta tók alveg tíma sinn, en vá hvað það var ótrúlega gaman að gefa eitthvað svona fallegt og persónulegt! Ég fór á konfektnámskeið Halldórs (hann er með námskeið á hverju ári í samstarfi við Hagkaup) í fyrra og það var eiginlega svona kveikjan að þessari gjöf. Svona konfektkassar þurfa alls ekkert að vera svona flóknir og það er hægt að hafa færri tegundir af molum og kannski bara fleiri af hverjum. Ég missi mig auðvitað stundum þegar ég byrja í eldhúsinu og það var akkúrat það sem gerðist í fyrra..
Uppskriftirnar af fyllingunum fann ég ýmist á netinu eða bjó til sjálf. Það er um að gera að nota ímyndunaraflið og prófa sig áfram með eitthvað sem maður heldur að gæti verið gott. Bleika og græna súkkulaðið fékkst í bökunardeildinni í Kost og var alveg ótrúlega þægilegt að vinna með. Kassarnir eru úr Söstrene Grene og ég sá einmitt í gær að það eru til margar tegundir af fallegum kössum. Með hverjum kassa lét ég svo fylgja miða með upplýsingum um hvaða moli væri hvað, sem ég föndraði í tölvunni.
Vonandi getið þið notað einhverjar af þessum hugmyndum og búið til skemmtilegar persónulegar gjafir handa ykkar nánustu!
xxx
áttu uppskriftirnar af fyllingunum í konfektmolunum?
LikeLike
Því miður á ég þær ekki en ég man að ég gúgglaði mig í gegnum þetta á sínum tíma – hver veit nema ég rifji upp taktana við konfektgerð fyrir þessi jól og deili með ykkur uppskriftum 🙂
LikeLike
Pingback: Uppskrift: Heimagerðar jólagjafir vol.2 | gyðadröfn