Heima hjá mér: Skipulag í skápum

Ég á alveg slatta af snyrtivörum og það getur verið ótrúlega mikið vesen að skipuleggja þær þannig auðvelt sé að sjá hvað maður á og ákveða sig hvað maður vill nota. Þegar ég flutti í íbúðina sem ég er í núna ákvað ég að nota hugmynd sem ég notaði í eldhúsinu í seinustu íbúðinni minni, afþví ég er með mjög djúpa og stóra baðskápa.
Stórir og góðir skápar eru auðvitað algjör draumur, en samt ekki fyrir svona skipulagsfrík eins og mig. Ég þoli nefnilega ekki að raða í svona djúpa skápa, og það er alltaf eitthvað sem endar aftast og gleymist að nota. Svo er ég líka svo mikil brussa að ef ég ætla að sækja eitthvað sem er aftast í skápnum þá hrindi ég alltaf öllu í kringum það og enda með skáp þar sem allt liggur út um allt í einni hrúgu og það er ekki séns að finna neitt.
Ég keypti mér snúningsdisk í Ikea sem er ætlaður til að bera fram osta eða eitthvað svoleiðis. Hann heitir Snudda og kostar heilar 1.250kr (hér: http://www.ikea.is/products/5807) svo þetta er mjög ódýr lausn fyrir stóra skápa. Diskurinn snýst auðveldlega og því er ekkert sem lendir aftast og gleymist. Eins og ég sagði ykkur áðan var ég með svona disk í eldhússkápnum mínum í seinustu íbúð og notaði hann fyrir bökunarvörur eins og hveiti og sykur, og það var ótrúlega þægilegt að þurfa ekki að teygja sig innst í skápinn til að ná í eitthvað.
Ég er með tvo svona diska í skápnum mínum og hann er svo stór að það er meirasegja alveg laust rými í kringum þá báða. Í baðskápnum geymi ég húðumhirðuvörur eins og krem, hreinsa, og vörur fyrir líkamann, en förðunarvörurnar geymi ég svo annarstaðar. Á öðrum disknum er ég með vörur fyrir andlit, andlitskrem, farðahreinsa, skrúbba, og fleira svoleiðis.
Á hinum disknum er ég með vörur fyrir hár og líkama, hársprey, brúnkuvörur, líkamskrem, svitasprey og fleira. Þetta er örugglega uppáhalds skipulagshugmyndin mín, og hefur einfaldað lífið mitt töluvert. Hingað til hefur nefnilega verið vandamál að vera brussuleg, subbuleg OG eiga mikið af snyrtivörum sem detta auðveldlega og sullast, en ekki lengur!
xxx