Uppskrift: Krukkugrautur með banana, kaffi og möndlum!
En ein krukkugrautsuppskriftin..ef þið þolið ekki graut vona ég að þið hættið ekki að lesa bloggið, ég er bara búin að vera með svo mikið æði fyrir þeim og endalaust að gera nýjar útfærslur. Meðleigjandinn minn nýtur góðs af tilraununum mínum og er eiginlega orðinn sérlegur krukkugrauts-smakkari bloggsins, og við vorum báðar sammála um að þessi sé klárlega einn af þeim bestu! Svo ég bara verð að deila henni!
Eins og alltaf eru krukkugrauts uppskriftirnar mjög svo sveigjanlegar, og ykkur er alveg óhætt að sleppa eða skipta út því sem þið eigið ekki til. Um að gera að prófa sig bara áfram og finna út hvað manni finnst best! Persónulega er ég algjör kaffifíkill og svo elska ég allt með banana, svo þessi grautur höfðar mjög mikið til mín. Svo er hann líka fullur af frábærum næringarefnum og algjör orkusprengja! Kaffi er auðvitað algjör orku-booster og bananinn er líka ótrúlega orkumikill, svo þessi grautur er alveg tilvalinn í töskuna á mánudagsmorgnum..reddaði allavega mínum mánudegi! Ég las einhverntímann að maður ætti að borða að minnsta kosti eitt stykki af brasilíuhnetu á dag, því að ein hneta inniheldur nánast 100% af ráðlögðum dagskammt af seleníum, sem er snefilefni sem er ótrúlega mikilvægt fyrir líkamann. Þetta er eitt af því sem ég hef lesið einu sinni og geri alltaf síðan, og bætti þessvegna við einni brasilíuhnetu ofan á grautinn minn.
Uppskrift fyrir eina krukku:
Grauturinn:
1/3 bolli hafrar
1 espresso eða 25-30ml af sterku kaffi
1/2 dós kaffijógúrt
50ml mjólk (ég notaði möndlu)
1 tsk. chia fræ
1-2 tsk. möndlusmjör
Ofan á og milli:
1/2 banani
Nokkrar möndlur
1stk. brasilíuhneta
Hrærið saman öllum innihaldsefnunum í grautinn. Skerið niður bananann í sneiðar og saxið möndlur og brasilíuhnetu. Hellið helmingnum af blöndunni í krukkuna ykkar og raðið bananasneiðum ofan á og dreifið möndlum yfir. Hellið restinni af blöndunni yfir og raðið afgangnum af banananum ofan á og dreifið afgangnum af möndlunum ykkar og brasilíuhnetunni yfir. Geymið í lokaðri krukku í ísskáp yfir nótt og njótið daginn eftir!
xxx
Pingback: Bloggið 1. árs: Besta uppskriftin fyrir magann | gyðadröfn
Pingback: Bloggið 1. árs: Besta uppskriftin fyrir magann | Gyða Dröfn