Uppskrift: Hreinsandi og róandi andlitsskrúbbur
Var ég búin að segja ykkur að ég elska hunang? Það hefur svo ótrúlega marga eiginleika sem nýtast fyrir húðina eins og ég hef áður sagt ykkur frá, sótthreinsandi, bólgueyðandi og með fullt af andoxunarefnum. Allra meina bót! En ég fékk beiðni um uppskrift að andlitsskrúbb og varð að sjálfsögðu við henni. Búin að vera í tilraunasloppnum seinustu daga og langar að segja ykkur frá einni dásamlegri uppskrift sem ég datt niður á í tilraunastarfseminni.
Þessi andlitsskrúbbur er algjörlega frábær til að hreinsa húðina. Ég bara gat ekki sleppt því að setja hunang í hann og svo inniheldur hann líka kókosolíu, sem margir nota til að hreinsa húðina, og hafra. Hafrar eru nefnilega ótrúlega góðir fyrir húðina og hafa lengi verið notaðir í til að fegra húðina, og vinna gegn bólum, örum og exemi. Þeir eru mjög róandi og hjálpa til við að létta á kláða og pirring í húðinni, en hreinsa líka mjög vel og mynda þunna filmu sem verndar húðina. Algjör ofurskrúbbur sem er tilvalinn fyrir allar húðgerðir.
Uppskriftin er svona:
1/2 dl. Hafrar (ég notaði tröllahafra)
1 msk. kókosolía
1 msk. hunang
Byrjið á að setja hafrana í blandara eða matvinnsluvél og blanda þangað til þeir eru orðnir að fíngerðu hafra-hveiti. Blandið því næst saman við kókosolíu (mjúka við stofuhita) og hunang. Skrúbburinn geymist best við stoufhita í lokuðu íláti á dimmum stað.
Ég bý svo vel að eiga dásamlega mömmu sem að fjárfesti í Nutri-bullet græjunni um daginn, þvílík snilld sem hún er! Ef að þið eigið svona er tilvalið að nota hana til að búa til duft úr höfrunum, tekur svona 5sek! Annars er ekkert mál að nota venjulegann blandara, matvinnsluvél eða töfrasprota.
xxx
Takk svo mikið! Fer strax í að búa þennan til 😀 kveðja, Anna Ýr
LikeLike