Uppskrift: Besti hafragrautur í heimi

Flest okkar kunna að búa til hafragraut, enda er það ekkert sérstaklega flókið. Hafrar, vatn og salt í pott er það ekki bara? Láta sjóða í smá stund og tilbúið? Jú vissulega er hægt að útbúa hafragraut á þann hátt, og meirasegja líka bara hægt að skella höfrum og vatni í örbylgjuofninn í smá stund til að fá fínan hafragraut.
Ég algjörlega dýrka hafragraut og reyndar bara hafra yfir höfuð. Hafrakökur, hafraklatta, elska þetta allt! En mér finnst alls ekki sama hvernig ég útbý hafragrautinn, en ég vil helst hafa hann mjög þykkan, og mér finnst bragðið af sjálfum höfrunum svo gott að ég vil finna sem mest af því. Mig langar að deila með ykkur hvernig ég útbý minn fullkomna hafragraut! Í þetta skiptið dreyfði ég ferskum hindberjum og Sukrin Gold (sem er eins og púðursykur) yfir, en það er líka yndislegt að nota til dæmis jarðaber eða bláber, eða bara hvað sem ykkur dettur í hug!
Í hann fer:
1/2 bolli tröllahafrar + 3 matskeiðar til viðbótar
1 bolli vatn
Smá salt
Ber, ávextir eða hvað sem mig langar í ofaná.
Hitið bakarofn í 180°. Ég byrja á að dreifa úr 1/2 bolla af tröllahöfrum á bökunarplötu eins og á myndinni hér að neðan, og set í heitann ofninn í sirka 7 mínútur, eða þar til hafrarnir ilma vel og hafa tekið smá lit. Næst set ég þá í lítinn pott með vatninu og saltinu og hita við meðalhita á eldavél þar til hann er farinn að sjóða. Þá lækka ég hitann og leyfi honum að malla í sirka 3-4 mínútur eða þar til blandan er orðin þykk og hafrarnir búnir að drekka í sig vatnið. Þá bæti ég við 2 msk. af óelduðum höfrum í pottinn og læt malla í 2 mínútur. Hræri vel í og bæti svo við seinustu matskeiðinni og leyfi að malla í mínútu til viðbótar. Tek úr pottinum, set í skál og borða hann strax.
Með því að baka tröllahafrana áður en þeir fara í grautinn kemur ennþá betra svona “bakað” hafra bragð af honum, sem mér finnst algjörlega dásamlegt. Mér finnst líka miklu betra að nota tröllahafra frekar en venjulega þar sem grauturinn verður þykkri og meiri matur. Ég fæ mér oft svona spari-hafragraut í hádegismat eða þegar ég hef nægann tíma til að dunda mér í eldhúsinu á morgnanna.
Lítill biti af himnaríki!
xxx
Pingback: Myndablogg: Sumarið á Instagram | gyðadröfn
Hvað kostar svona sukrin gold? 🙂 fæst það í hagkaup þá eða ? 🙂
LikeLike
Mig minnir að sukrin gold sé eitthvað í kringum 1000kr, og það fæst í Nettó og Hagkaup 🙂
LikeLike