Uppskrift: Hrákaka með kókoskeim

Ég er búin að fá mjög margar fyrirspurnir um hvítu kökubitana sem eru á myndinni sem ég setti inn seinasta mánudag. Þetta eru hrákökubitar en ég er búin að vera að vinna í að fullkomna uppskriftina seinustu vikur. Er búin að gera endalausar útgáfur en grunnurinn er samt alltaf sá sami. Ég lofaði að deila með ykkur uppskrift þegar ég væri ánægð með hana og held bara að ég sé orðin sátt!
Þetta er kannski ekkert endilega girnilegasta kaka í heimi..en ljúffeng er hún! Þar að auki er hún töluvert hollari en hin venjulega meðal-kaka, og mér finnst ég bara þurfa smá bita af þessari til að fullnægja kökuþörf dagsins. Ég er alveg sögulega léleg að skera kökuna niður í fallega og jafna bita, en það gerir ekkert til þar sem hún klárast yfirleitt fljótt.
Uppskriftin er svona:
Botninn
1 bolli möndlur (ég nota smá kasjúhnetur með eins og á myndinni hér fyrir ofan, það er algjörlega valfrjálst)
1 bolli döðlur
Kremið
1/2 bolli kókosolía
1/2 bolli kasjúsmjör (fæst í Bónus)
10 döðlur
1 msk. agave sýróp eða hlynsýróp (má sleppa)
Smá sjávarsalt
Aðferð: Byrjið á að gera botninn með því að setja möndlurnar og döðlurnar í matvinnsluvél og vinna vel saman þannig það verði að einskonar deigi. Deigið á að vera þét og klístrað og allt fast saman, ef að það er þurrt setjið þá bara smávegis vatn samanvið. Mjög mikilvægt að það sé nógu blautt og haldist saman. Klessið deiginu í bökunar, ál- eða eldfast form og dreifið því jafnt og þétt yfir botninn. Mitt form var sirka 15x25cm en því minna form, því þykkari verða bitarnir. Frystið í allavega klukkutíma eða yfir nótt. Til að gera kremið set ég kókosolíuna í matvinnsluvél eða blandara og þeyti hana eins og rjóma þangað til hún er orðin frekar létt í sér. Passið að hita olíuna ekki áður en þið notið hana, takið hana bara beint úr krukkunni sem er búin að standa við stofuhita og byrjið að þeyta. Eftir sirka mínútu bætið þið kasjúsmjörinu, döðlunum, sýrópinu (ef það er notað) og saltinu við og þeytið mjög vel þangað til að kremið er komið með fallega áferð. Dreifið kreminu yfir kældann botnið og frystið aftur þangað til kremið er búið að setjast alveg. Hún geymist best í frysti en það er best að taka hana út aðeins áður en þið ætlið að borða hana svo hún sé ekki alveg frosin. Mér finnst best að eiga alltaf nokkra bita í ísskáp en þeir eru fullkomnir til að borða þá við það hitastig.
xxx