Uppskrift: Besti bólubaninn!
Jæja ég skellti mér í tilraunasloppinn (hlébarða-silki sloppinn minn) enn á ný og prófaði nýja uppskrift af andlitsmaska sem ég er mjög spennt að segja ykkur frá! Hver kannast ekki við að fá bólu á versta mögulega stað á versta tíma og vilja gera allt sem hægt er til að losna við hana? Besta lausnin finnst mér vera þessi ofur-maski!
Ég hef svo oft rekist á þessi tvö innihaldsefni saman í uppskrift af bóludrepandi andlitsmöskum að ég bara varð að prófa sjálf! Í maskann fer:
1 msk. Hunang
1 msk. Múskat
1 tsk. Kanill (valfrjálst)
Hrærið saman í þykkt “paste” og berið á andlitið, látið bíða í 15-20mín.
Eins og ég hef oft sagt ykkur frá áður er hunang miklu meira en snilld fyrir húðina. Það er sótthreinsandi, bólgueyðandi og stútfullt af andoxunarefnum. Múskat er líka bólgueyðandi og örvar blóðflæðið og hefur verið notað í áraraðir við exemi og öðrum húðvandamálum. Þegar við sameinum þessi tvö innihaldsefni fáum við út maska sem er algjört kraftaverk fyrir húð í uppnámi! Ef þið viljið fá enn meiri virkni í maskann er hægt að setja 1 tsk. af kanil líka, sem örvar blóðflæðið ennþá meira!
Ég mæli með að prófa maskann á smá svæði á hendinni ykkar þegar þið gerið hann í fyrsta skiptið til að vera viss um að þið þolið hann. Múskatið getur nefnilega virkað misjafnlega á húðina okkar svo það er alltaf gott að prófa fyrst á litlum stað til að vera viss. Ég notaði ekki kanil í minn maska núna því húðin mín er búin að vera frekar viðkvæm. Ég bar hann á allt andlitið í þetta skiptið en svo er snilld að nota hann sem meðferð á hverjum degi, og bera hann þá bara á vandamálasvæðið, þangað til bólurnar hverfa (sem þær munu gera eins og dögg fyrir sólu)!
Maskinn gerir líka kraftaverk fyrir ör og rauða bletti eftir bólur sem getur verið erfitt að losna við. Meðan maskinn er á finnur maður ekkert fyrir honum en svo eftir að maður tekur hann af finnur maður alveg hvað húðin vaknar og blóðflæðið örvast, svo ekki láta ykkur bregða þó hann svíði aðeins eftir á. Ég mæli svo með að liggja með hann á þar sem hann á það til að byrja að leka niður af andlitinu sem getur orðið mjög subbulegt (ég ætti að þekkja það).
xxx
snilld 🙂 gaman að lesa allar þessar uppskriftir er búin að prófa nokkrar 🙂
LikeLike
æi mikið er það nú gaman að heyra!! 🙂
LikeLike
Ég er búin að vera fá svolítið af bólum nýlega, svo ég hlakka til að prufa þessa! 🙂 Ásamt öðrum möskum frá þér, þú ert alveg snillingur ^^,
LikeLike
Takk kærlega og takk fyrir að lesa ❤
LikeLike
Er að prófa þessa uppskrift, er að velta fyrir mér hvort sé í lagi að búa til “byrgðir” og taka með sér í ferðalag? Hefurðu prófað það ?
LikeLike
Ég hef oft gert allavega fyrir nokkra daga í einu, og það er í góðu lagi. Hef reyndar ekki reynslu af lengri tíma, en ég gæti samt alveg ýmindað mér að það ætti ekki að breyta neinu 🙂 hunang rennur aldrei út og múskat mjög seint, svo ég hugsa að það sé í góðu lagi!
LikeLike