Uppskrift: Banana og karamellukaka með rjómaostakremi
Strax aftur kominn laugardagur, og ég byrjaði minn laugardag í eldhúsinu eins og svo oft áður! Yndislegt að vakna þegar sólin skín og fara að dunda sér í eldhúsinu.
Ég fann uppskriftina af þessari köku á Bakers Royale fyrir einhverju síðan og er búin að ætla að prófa hana lengi og ákvað að láta loksins verða af því í dag. Ég elska allt sem er bakað með banana og svo finnst mér karamellusósan guðdómleg. Dulce de leche er spænsk karamellusósa sem er í raun nokkurskonar “mjólkursulta”, en sæt mjólkin er hituð hægt þar til hún verður að þykkri sósu. Ef maður fer til spánar eða landa í kring sér maður allskonar ís og kökur með dulce de leche bragði og ég er alveg sérstakur aðdáandi þeirra!
Uppskriftin er alls ekki flókin en það hefur stundum verið erfitt að fá karamellusósuna á Íslandi, ég veit samt að hún fékkst í Kost seinast þegar ég fór þangað og svo hefur hún stundum verið til í Hagkaup. Ég er svo mikill uppskriftanörd að ég kaupi alltaf birgðir af niðursoðinni mjólk, karamellusósu og fleiru sem er erfitt að fá hér þegar fer til útlanda og burðast með krukkur og dósir heim í töskunni, mjög vinsælt..
Linkurinn á uppskriftina er hér: http://www.bakersroyale.com/cakes/dulce-de-leche-banana-cake/
Banana karamellukaka með rjómaostakremi:
Kakan:
1/2 bolli sýrður rjómi (ég notaði 36%)
1 tsk. matarsódi
120gr. lint smjör
1 bolli sykur
2 egg
1 tsk. vanilludropar
2 bollar hveiti
1 tsk. lyftiduft
1/4 tsk. salt
1 bolli stappaður banani (sirka 1 og 1/2 stór banani)
3/4 bollar dulce de leche karamellusósa
Hitið ofninn í 180°. Byrjið á að blanda saman sýrðum rjóma og matarsóda í skál og setjið til hliðar. Hrærið næst smjör og sykur þar til létt og ljóst. Bætið eggjunum við einu í einu og hrærið vel á milli. Bætið næst við vanilludropum og hrærið vel. Setjið næst hveiti, lyftiduft og salt í aðra skál og blandið saman. Blandið svo karamellusósunni og banana við sýrða rjómann og hrærið. Bætið hveitiblöndunni og bananablöndunni til skiptis við sykurinn og smjörið og hrærið vel á mili. Hellið kökunni í smurt hringlaga form og bakið í sirka 45mín, stingið í miðjuna til að athuga hvort hún sé tilbúin.
Rjómaostakrem:
120gr. lint smjör
240 gr. rjómaostur (kaldur)
1 tsk. vanilludropar
2 og 1/2 bolli flórsykur
Aðferð:
Hrærið vel saman smjör og rjómaost og bætið vanilludropum við. Sigtið flórsykurinn smám saman útí og hrærið vel á meðan.
Leyfið kökunni að kólna alveg áður en þið setjið kremið ofaná.
Mæli endilega með að prófa hana, sérstaklega ef þið elskið banana eins og ég. Hún er alveg ótrúlega þétt og góð og karamellusósan gerir hana ómótstæðilega!
Á morgun ætla ég svo að sýna ykkur heimatilbúinn andlitsmaska sem ég nota alltaf reglulega svo fylgist með!
xxx